Þjónusta

Ég veiti alhliða textaþjónustu fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga og hef á mínum snærum teymi annarra sérfræðinga þegar á þarf að halda. Ég sérhæfi mig í prófarkalestri og málfarsráðgjöf auk þess sem ég annast textagerð og ritstjórn á prentuðu efni og vefsíðum, móta raddblæ (e. tone of voice), veiti ráðgjöf við samræmingu ólíkra texta og svo mætti áfram telja.

Í þeim tilvikum sem verkefni krefjast annarrar sérhæfingar kalla ég til viðeigandi verktaka úr hópi tengiliða minna, sé sjálfur um verkefnastjórnun og ber ábyrgð á verkinu. Þau sem ég vinn með eru til að mynda þýðendur, hugmynda- og textasmiðir, ritstjórar, umbrotsmenn og sérfræðingar í samfélagsmiðlum og leitarvélabestun. Þetta tengslanet gerir mér kleift að bjóða upp á umfangsmikla og heildstæða textaþjónustu þar sem viðskiptavinurinn þarf aðeins að vera í samskiptum við einn verkefnastjóra.

Einnig held ég hagnýt námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækja, til dæmis um algengustu villur í rituðu máli, hvað sé best að gera til að skera úr um vafaatriði í texta og hvernig skrifa megi lýtalausan tölvupóst.

Verk

Í gegnum árin hef ég unnið ótalmörg verk sem spanna breitt svið textaþjónustu. Má þar nefna málfarsráðgjöf fyrir Stjórnarráð Íslands, heildstæða textaþjónustu fyrir vefsíður ýmissa fyrirtækja, skýrsluskrif fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, ritstjórn bóka, tímarita og vefsíðna, textavinnu fyrir Þjóðskjalasafn Íslands og síðast en ekki síst prófarkalestur á fjöldanum öllum af opinberum skjölum, tímaritum, bókum, söngtextum, auglýsingum og vefsíðum.

Umsagnir

„Haukur hefur prófarkalesið tímaritið Sögu lengi vel. Hann er nákvæmur, vandvirkur og lipur í samskiptum.“
— Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson, ritstjórar Sögu – tímarits Sögufélags.

„Haukur hefur verið okkur innan handar með textaþjónustu og það hefur alltaf verið hægt að treysta á að hann skili sínu á umsömdum tíma. Á álagstímum og þegar áætlanir breytast hefur sveigjanleiki Hauks verið okkur ómetanlegur. Vinnubrögðin eru ávallt til fyrirmyndar og hugsað fyrir öllu.“
— Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, sérfræðingur hjá hinu opinbera.

„Haukur hefur frá upphafi lesið yfir alla texta Skálmaldar fyrir útgáfu. Fyrir textanörd eins og mig sem þykir vænt um stöffið sitt og hver einasta komma, stafabil og bandstrikalengd skiptir máli er ótrúlegt að hafa fundið mann sem ég treysti fyrir þessu. Þegar ég hef rétt fyrir mér hefur hann enn réttara fyrir sér.“
— Snæbjörn Ragnarsson, tónlistarmaður (Skálmöld, Ljótu hálfvitarnir) og hugmynda- og textasmiður (Pipar\TBWA).

Um mig

Haukur Bragason

Ég hef frá því að ég man eftir mér haft áhuga og metnað fyrir framsetningu texta. Ég er fyrrverandi kennari, kenndi lengi vel ýmsar greinar á unglingastigi auk íslensku í undirbúningsnámi fyrir háskóla, og samhliða því tók ég að mér prófarkalestur og síðar aðra textaþjónustu. Á endanum vatt ég mér alfarið yfir í þau störf og vann við bæði ýmsa textaþjónustu og verkefnastjórnun hjá markaðs- og þýðingastofum áður en ég hóf sjálfstæðan rekstur árið 2019.

Ég nýti mér nýjungar í textavinnslu og stafræn gagnasöfn, fylgist með framförum í íslenskri máltækni og hef ávallt til hliðsjónar nýjustu ritreglur um stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Í mínum störfum hef ég það að leiðarljósi að textar séu skýrir og miðli kjarna málsins. Gott innihald er þó ekki nóg, uppsetning og samræmi þarf að endurspegla fagmennsku og auðvelda lesandanum að nálgast aðalatriðin. Fyrst og fremst brenn ég fyrir því að metnaður sé sýndur við sköpun texta rétt eins og við hönnun, forritun, miðlun og annað sem tengist því að koma skilaboðum áleiðis.

Fyrirspurnir

Hikaðu ekki við að hafa samband ef þú vilt fá verðtilboð eða hugmynd um útfærslu á þínu verki. Farið er með öll gögn sem trúnaðarmál.

 bragasonhaukur@gmail.com

 6153615

Haukur Bragason
Naustabryggju 33
110 Reykjavík

Kt. 0110835879
Vsknr. 136313